Tónlistarmaðurinn Eyvindur Karlsson sem stendur einnig að baki tónlistarverkefninu One Bad Day hyggur á tónleikahald á Melodica hátíðinni sem haldin verður í tónlistarhöfuðborg Bandaríkjanna, Nashville í Tennessee, 18. og 19. október n.k.
Melodica er alþjóðleg hátíð sem miðar að því að styrkja tengslanet söngvaskálda víðsvegar um heiminn, og er að öllu leyti rekin í sjálfboðavinnu. Eyvindur stendur nú fyrir fjáröflun til að standa straum af kostnaði við ferðalagið til Nashville, og blæs til söfnunartónleika í Djúpinu í Hafnarstræti á fimmtudagskvöldið kemur (19. september), auk þess að selja varning og bjóða fólki hreinlega að styrkja sig til að komast í þessa spennandi ferð.
Melodica er alþjóðleg hátíð sem hefur farið fram víðsvegar í heiminum frá árinu 2007, en það var ástralski tónlistarmaðurinn Pete Uhlenbruch sem stóð fyrir þeirri fyrstu í Melbourne í Ástralíu, og síðar sama ár fór fyrsta hátíðin fram í Reykjavík. Fyrir utan að vera skemmtilegar hátíðir þá eru Melodica einnig hugsaðar til að efla samskipti listamanna um allan heim, og í dag er Melodica fjölskyldan orðin stór, og sífellt bætast nýjar hátíðir við. Hátíðin í Nashville í október er sú fyrsta sem er haldin þar, en upphafsmaður hennar er Eggert Einer Nielsen, sem hefur margoft spilað á Melodica í Reykjavík og víðar. Eggert var lengi búsettur á Vestfjörðum og stóð til að mynda fyrir hátíðinni Bláberjadögum í Súðavík.
Eyvindur hefur spilað á Melodica í Reykjavík frá upphafi eða í þrettán skipti á þeim tólf árum sem hátíðin hefur verið haldin. Einnig er Eyvindur upphafsmaður Melodica í Hafnarfirði, sem haldin var í fyrsta sinn síðastliðið vor og verður aftur haldin næsta vor.
Melodica skipar því stóran sess í hjarta Eyvindar, og á þeim Melodica hátíðum sem Eyvindur hefur spilað hefur hann látið flúra einkennismerki hverrar hátíðar á handlegg sinn sem eins konar tákn um tryggð við hátíðina. Nú prýða handlegg hans merki Melodica hátíðarinnar í Reykjavík, Hafnarfirði og Nottingham á Englandi.
Fimmtudagskvöldið næstkomandi, 19. september, verða haldnir fjáröflunartónleikar í Djúpinu, fornfrægum bar í kjallaranum á veitingastaðnum Horninu. Þar mun One Bad Day stíga á svið í öllu sínu veldi sem heil hljómsveit. Tilgangurinn er að safna fé til fararinnar fyrir Eyvind. Aðgangseyrir og ágóði fyrir sölu á varningi rennur óskiptur í ferðasjóð Eyvindar. Miðasala fer fram á vefsíðu Eyvindar, og fólk er hvatt til að kaupa miða tímanlega, en húsið rúmar fáa. Miðaverð er fljótandi, þannig að fólk getur borgað ákveðna lágmarksupphæð fyrir miðann, en einnig bætt við aukafjárhæð að eigin vali til styrktar ferðasjóðnum. Það sama gildir um sölu á varningi á vefsíðunni og tónleikunum. Á tónleikunum verður hægt að kaupa hljómplötuna „A bottle full of dreams“ sem kom út á síðasta ári. Platan er fáanleg sem geisladiskur, niðurhal og vínyl plata.