Íslenska tónlistarútgáfufyrirtækið Móatún 7 mun í næsta mánuði gefa út tónlist eftir Humanoid og Yage.
Fyrir þá sem ekki vita er Yage sameiginlegt dulnefni Brians Dougans og Garrys Cobain úr hinni bresku og goðsagnakenndu rafsveit Future Sound Of London (FSOL) en Humanoid er dulnefni sem Brian notar einn. Milliliður Móatún 7 og listamannanna er Martin Boulton, forsprakki Touched Music, en hann og Árni Grétar (Futuregrapher) sem er maðurinn á bakvið Móatún 7 eru góðir félagar. Fyrr í sumar gaf Móatún 7 út „remix“ eftir bresku rafsveitina Plaid, en hún og FSOL eru talin vera með stærri nöfnum í raftónlistarheiminum og því ljóst að stórir hlutir eru að gerast hjá þessu litla tónlistarútgáfufyrirtæki.
Mikið er um að vera hjá útgáfunni og mælum við eindregið með að þið kynnið ykkur efnið þeirra á Bandcamp
Hér fyrir neðan má hlýða á eitt klassískt lag frá Future Sound Of London!
Móatún 7 á Facebook