Gabríel Sölvi, eða Gabe Real eins og hann kallar sig, var að senda frá sér sína fyrstu plötu sem ber nafnið Reality.
Kappinn hefur ávallt verið hrifinn af hip hop-tónlist og hlustað á rapp frá því hann man eftir sér. „Platan mín, Reality, er meira og minna samsetning af flestu sem maður hefur heyrt úr hip hop-sögunni, þar sem platan byrjar og endar á hörðum rímum og svokölluðum boom bap-töktum. Einnig má heyra tónlistarstefnur eins og „trap“ og „soul“ og inn á milli eru talsvert róleg lög.“ Gabríel segist fyrst og fremst vera textasmiður sem elskar allt sem tengist hip hop-tónlist – tónlistinni sem byrjaði í byltingu, tjáningu og menningu og hefur þróast yfir í stærstu tónlistartegund heims.