Tónlistarmaðurinn Sigurjón Sveinsson hefur sett 100 lög á youtube rás sína á árinu. Hann segist hvergi nærri hættur og stefnir á að gefa út 100 lög í viðbót á þessu ári.
Þann 4. janúar hóf hann útgáfu á tónlist sinni í verkefni sem hann kallar dægurflugur og „instant songs“ á ensku. Hugmyndin er að setja alla þá tónlist sem hann gerir, beint á netið og hrátt. Öll lögin eru sett beint á youtube.
Sigurjón segist alltaf hafa átt auðvelt með að semja lög og að tími sé kominn til að leyfa tónlistinni að njóta sín. „Um leið og ég fékk minn fyrsta gítar í hendurnar fór ég strax að semja tónlist“ segir hann. „Ég hef haft þetta verkefni í maganum lengi því lögin sem ég hef samið hafa mörg hver gleymst eða týnst. Pælingin var alltaf að gefa út eitt lag á dag í heilt ár en ég held að það sé raunhæfara að hugsa þetta aðeins öðruvísi og gefa bara út það sem kemur þegar ég tek upp gítarinn. Markmiðið er ekki að gera endilega eitt lag á dag. Lögin mega vera færri eða fleiri, það sem kemur bara kemur og fær að fljóta beint á netið.“ Sigurjón heldur áfram: „Ég gef lögunum sjálfum þar með algjört frelsi, þau stýra þessu bara og fá að fljóta beint á netið. Þau verða þá að sama skapi að spjara sig sjálf þar.“
Er þetta þá allt glæný tónlist? „Já, eiginlega, flest lögin eru bara spiluð á meðan þau eru samin. Ég tek þau upp á videó og ef úr verður lag sem hefur einhverja mynd þá fer það strax út. Flest lögin eru nokkurra mínútu gömul þegar þau koma út.“ Hann segir einnig að það sé gaman að horfa á þetta sem einhvers konar tónlistardagbók, því lögin segja mörg sögu um það gerist á hverjum degi. Lag nr. 100 hafi t.d. verið samið til konu sem sagði að honum að hann þyrfti á meiri ást og umhyggju að halda. Strax varð til lag um það. Eitt lagið er um bjór og pílukast í Þýskalandi. Hvíldartími í vinnuferð varp að lagi.
Hvernig kom hugmyndin um að setja tónlistina beint á youtube til? „Satt að segja er ég ekki viss um hvenær hugmyndin varð til, en ég hef alltaf samið mikið af tónlist. Ég hef haldið stofutónleika heima hjá mér og spilað fyrir vini og fjölskyldu og sett svo á netið. Þetta er kannski sama pælingin nema að lögin fara beint út og áhorfandinn er enginn í upphafi en svo allur heimurinn í kjölfarið. Svo hjálpaði það mér að verða af þessu þegar tölva með einhverjum hundruðum af lögum gaf sig. Ég hef ekki tölu á því hve mikið af tónlist hefur glatast með þeim hætti. Þetta er þannig líka leið mín til að varðveita lögin.“
Um hvað fjalla lögin? „Textarnir eru oftast um hversdagslega hluti og atburði í lífinu. Get þó alveg viðurkennt að stundum eru textarnir algjörlega samhengislaus steypa en stundum detta einhvern veginn inn algerir gullmolar. Mér fannst skemmtilegt um daginn þegar setningin „didn´t mean to break down the wall of sound“ varð til upp úr engu þegar ég tók upp gítarinn hjá frænda mínum í London. En mér sýnist þetta vera mest bara um fegurð hversdagsins.“
En hvert er markmiðið með þessu? „Úff, það er, held ég, ekkert markmið með þessu og ég hef engar væntingar til verkefnisins. Góður maður sagði einu sinni að maður velur ekki að vera í tónlist, tónlistin velur mann og þá getur maður einfaldlega ekki gert ekki neitt. Ég er þriggja barna faðir í krefjandi starfi og því er svo sem ekki mikill tími eftir til að fylgja þessum hlutum eftir. Þetta er mín leið til að sinna tónlistinni eins og ég get með minn takmarkaða tíma. Svo má líka horfa á þetta sem lagabanka fyrir aðra að skoða og jafnvel nýta, þannig að ef einhver hefur áhuga á að gera eitthvað með þessi lög þá er fólki frjálst að gera það sem það vill með þau. Mér er í raun alveg sama, þetta snýst bara um að gefa núinu og tónlistinni pláss í lífinu. Framtíðin er aukaatriði í svona verkefni.“
Hægt er að hlusta á öll lögin á Youtube rás kappans sem má finna HÉR.