Jazzklúbburinn Múlinn heldur áfram og fara næstu tónleikar tónleikaraðarinnar fram miðvikudaginn 24. febrúar. Gítarleikarinn Ásgeir J. Ásgeirsson leiðir tríó sitt á tónleikunum en hann gaf út geisladiskinn Tríó á síðasta ári en á honum samdi hann lög fyrir fimm mismunandi tríó. Diskurinn hefur fengið góða dóma fyrir sitt fjölbreytta yfirbragð. Tríó Ásgeirs er skipað bassaleikaranum Gunnari Hrafnssyni og Erik Qvick sem leikur á trommur, sérstakir gestir verða trompetleikarinn Snorri Sigurðarsson, Haukur Gröndal sem leikur á saxófón og píanó- og orgelleikarinn Karl Olgeirsson.
Spennandi vordagskrá Jazzklúbbsins Múlans heldur síðan áfram með 16 tónleikum sem fram fara flest miðvikudagskvöld til 11. maí á Björtuloftum, Hörpu. Múlinn er á sínu 19. starfsári en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.