Hljómsveitin Náttfari hefur gefið út sína aðra plötu, D-Sessions en platan kom út á dögunum á tónlistarveitunni Spotify.
Platan fylgir eftir þeirra fyrstu plötu, Töf sem kom út árið 2011. D-Sessions inniheldur 9 lög, tekin upp á 5 ára tímabili í stúdíó FinnLandi í Hafnarfirði. Tónlist Náttfara má lýsa sem sveimandi og taktföstu síðrokki, en hljómsveitin sækir áhrif sín úr ýmsum áttum, m.a. raftónlist, súrkálsrokki, síðrokki, grunge, jazz, klassík osfrv. Samstarf þeirra Náttfaradrengja nær langt aftur. Þeir eru æskuvinir úr Bústaðahverfinu í Reykjavík og byrjuðu að fikta við lagasmíðar saman í kennaraverkfallinu árið 1995.
Náttfari var formlega stofnuð árið 2000. Hún var iðin við spilamennsku um það leiti og vakti m.a. athygli á Airwaves hátíðinni árið 2001. Sveitin lagðist í dvala árið 2002 en tók upp hljóðfærin aftur árið 2010 og spilaði þá aftur á Airwaves um haustið. Í kjölfarið var platan Töf tekin upp og kom út haustið 2011. Nokkur spilamennska fylgdi í kjölfarið en sveitin kom m.a. fram á ATP tónlistarhátíðinni 2014. Upptökustjórn á D-Sessions annaðist Finnur Hákonarson. Hönnun umslags var í höndum Emils Ásgrímssonar. Náttfari eru Andri Ásgrímsson, Nói Steinn Einarsson og Haraldur Þorsteinsson.
Náttfari á Facebook