Á næstu tónleikum Jazzklúbbsins Múlans þann 1. desember kemur fram tríó bassaleikarans góðkunna Tómasar R. Einarssonar. Ásamt honum í tríóinu eru gítarleikarinn Ómar Guðjónsson og söngkonan Sigríður Thorlacius. Ómar og Tómas gáfu út á þessu ári dúódiskinn, Bræðralag þar sem þeir spila eigin tónlist. Sigríður var aðalsöngvari á geisladisknum Mannabörn sem Tómas gaf út á síðasta ári. Efnisskráin hjá tríóinu verður því fjölbreytt og úr mörgum áttum.
Spennandi vetrardagskrá Jazzklúbbsins Múlans heldur síðan áfram með tónleikum sem fara fram flest miðvikudagskvöld til 16. desember á Björtulöftum, Hörpu. Múlinn er á sínu 19. starfsári en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg og Tónlistarsjóðnum og er í samstarfi við Heimstónlistarklúbbinn og Hörpu.
Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2000, 1000 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is